EN
PO
Search
Close this search box.

Ræða Kolbeins Óttarssonar Proppé í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra

Deildu 

Góðir landsmenn,

Það væri að bera í bakkafullan lækinn að bætast í þann hóp ræðumanna sem gerir loftslagsmálin að umtalsefni hér í kvöld, ef þau væru ekki jafn mikilvæg og raun ber vitni. Bakkafullir lækir eru líka táknrænir fyrir þá hlýnun heimsins sem maðurinn virðist loksins farinn að átta sig á að verði að sporna við. Og líkt og lækir, bakkafullir sem aðrir, renna saman við aðra svo léttleikandi hjalið verður að beljandi krafti, eins þurfum við öll að taka höndum saman til að mynda þann kraft sem til þarf.

Hamfarahlýnun. Þetta kliðandi nýyrði sem felur í sér svörin við einni af þeim spurningum sem heimspekingar hafa í gegnum aldirnar leitað svara við; hvernig endar þetta allt saman? En með sömu hugkvæmni og nýyrðasmiðir sýndu við sköpun þess orðs; þannig getum við skapað lausnir við því sem nýyrðið lýsir, búið til nýja framtíð, haldið óvissunni um endalokin áfram.

Til þess að svo megi verða þurfum við öll að taka höndum saman. Skiptir þá engu hvar í flokki við stöndum, hverjar aðrar skoðanir okkur eru, hver afstaða okkar er til skatta, kvótakerfisins, einkareksturs í heilbrigðiskerfinu, auglýsinga í Ríkisútvarpinu eða hvers annars sem við höfum skoðun á, eða hver er stétt okkar og staða. Það eina sem skiptir máli er að viðurkenna vandann og vera tilbúin til að taka á honum. Afneitunin er, í þessu sem öðru, eyðandi afl sem eitrar út frá sér og þeim sem afneita loftslagsbreytingum af mannavöldum á ekki að sýna neina meðvirkni.

Við þurfum að endurhugsa alla okkar pólitík, hún á öll að vera hugsuð út frá loftslagsmálum. Hvernig byggjum við upp kolefnishlutlaust samfélag – það er verkefnið. Matvælaframleiðsluna þarf að hugsa út frá því, innflutning okkar, neyslu hvers og eins, hvernig við færumst á milli staða, ferðaþjónustuna, almennan iðnað, lítil og meðalstór fyrirtæki, orkukerfið. Við getum ekki lengur leyft okkur að hugsa fyrst og fremst um það hve margar krónur og aura við fáum fyrir þá orku sem auðlindir okkar gefa okkur; hvernig hún nýtist í baráttunni gegn hlýnun jarðar er aðalmálið. Hvert er kolefnissporið frá framleiðslu orku að framleiddri vöru, svarið við því er það sem öllu skiptir.

Höfnum gamaldags hernarðaruppbyggingu sem vinnur gegn loftslagsmarkmiðum og nýtum bankakerfið í baráttunni. Komum upp fjárfestingabanka loftslagsins sem lánar til verkefna sem sporna gegn útblæstri, þó arðsemin sé kannski eitthvað minni en helstu kröfur kapítalismans heimta. Hamfarahlýnun á að gera okkur öll að sósíalistum, ef okkur er alvara með að berjast gegn henni. Eldri, miðaldra, ung – öll erum við eitt.

Mæður og feður þessa lands ekki gagnrýna það sem þið ekki skiljið, söng Bob Dylan fyrir 55 árum, þið hafið ekki yfir börnum ykkar að segja því ykkar gömlu aðferðir eru úreltar og þið stjórnmálmenn hlýðið á kallið ekki þvælast fyrir og þið sem skrifið og gagnrýnið ljúkið upp augunum því þetta er ykkar eina tækifæri línan hefur verið dregin gömlu skilin eru að hverfa tími breytinganna er upp runninn.

Tími breytinganna er upp runninn. Hlýðum kalli tímans; öll sem eitt. Það er einfaldlega ekki önnur leið til. Látum hamfarahlýnun verða orð sem sagnfræðingar framtíðarinnar þekkja sem vel heppnað nýyrði yfir nokkuð sem enginn í samtíma þeirra skilur.

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search