Search
Close this search box.

Samfelld barneignaþjónusta

Deildu 

Í sept­em­ber samþykkti ég aðgerðaáætl­un um barneignaþjón­ustu til árs­ins 2030, sem miðar að því að bæta barneignaþjón­ustu, jafnt á meðgöngu­tíma, við fæðingu barns og í kjöl­far fæðing­ar. Í heil­brigðis­stefnu til árs­ins 2030 er lögð áhersla á þjón­ustu­stýr­ingu og flæði not­enda milli þjón­ustu­stiga og hvernig stýra megi þjón­ustu til að tryggja ör­yggi og jafn­ræði. Til þess þarf að vera yf­ir­sýn yfir þjón­ust­una, mis­mun­andi þætti henn­ar og upp­lýs­ingaflæði milli þeirra. Aðgerðaáætl­un­in end­ur­spegl­ar þessi áherslu­atriði heil­brigðis­stefnu.

Rann­sókn­ir sýna að fæðingar­út­koma er best þar sem gott sam­starf er á milli starfs­stétta sem koma að þjón­ust­unni. Teym­is­vinna og skipu­lögð sam­vinna milli starfs­fólks heilsu­gæslu­stöðva og einnig milli ljós­mæðra og fæðing­ar­lækna eru því lyk­il­atriði í barneignaþjón­ustu. Aðgerðaáætl­un­in um barneignaþjón­ustu miðar að því að tryggja þessa sam­fellu í þjón­ustu; auka yf­ir­sýn, aðgengi og sam­starf í þjón­ust­unni til að tryggja ör­yggi, gæði og fag­mennsku henn­ar, óháð bú­setu, fjár­hag og fé­lags­legri stöðu skjól­stæðinga. Við þróun barneignaþjón­ust­unn­ar er mik­il­vægt að viðhalda góðum ár­angri sem hér á landi er með því besta sem þekk­ist. Engu að síður er mik­il­vægt að nýta öll færi sem gef­ast til að bæta enn frek­ar heilsu og líðan fjöl­skyldna í barneigna­ferli.

Áætl­un­in er byggð á skýrslu starfs­hóps sem ég fól að gera til­lög­ur að bættri barneignaþjón­ustu með áherslu á að auka samþætt­ingu milli meðgöngu­vernd­ar, fæðing­ar­hjálp­ar og þjón­ustu við kon­ur í sæng­ur­legu. Yf­ir­sýn­in yfir þjón­ust­una og sam­vinn­an milli stofn­ana er gríðarlega mik­il­væg og einnig bakstuðning­ur fyr­ir fag­fólk sem eyk­ur fag­mennsku og aðgengi að nauðsyn­legri þjón­ustu og eyk­ur þar með ör­yggi kvenna og barna. Skýrsla með til­lög­um starfs­hóps­ins var birt til um­sagn­ar í sam­ráðsgátt stjórn­valda í byrj­un þessa árs og bár­ust um­sagn­ir sem einnig voru hafðar til hliðsjón­ar við gerð aðgerðaáætl­un­ar­inn­ar, sem nú hef­ur verið samþykkt.

Í þessu sam­hengi er einnig vert að nefna að ég staðfesti ný­lega ramma­samn­ing Sjúkra­trygg­inga Íslands við ljós­mæður vegna fæðinga og umönn­un­ar sæng­ur­kvenna í heima­hús­um. Árið 2020 fjölgaði kon­um sem nutu aðstoðar við heima­fæðingu um 40% frá fyrra ári. Með þeim samn­ingi sem nú hef­ur verið und­ir­ritaður er stuðlað að því að fæðandi kon­ur fái þjón­ustu á viðeig­andi þjón­ustu­stigi. Meðal ný­mæla samn­ings­ins er stór­auk­in þjón­usta við mæður sem þurfa ráðgjöf vegna brjósta­gjaf­ar, en vitj­un­um brjósta­gjaf­aráðgjafa er fjölgað og tíma­bilið sem kon­ur geta nýtt sér þjón­ustu þeirra er lengt úr tíu dög­um í sex mánuði eft­ir fæðingu.

Ný­gerðir samn­ing­ar SÍ við ljós­mæður og aðgerðaáætl­un í barneignaþjón­ustu marka stór skref í átt að enn betri barneignaþjón­ustu hér á landi.

Svandís Svavarsdóttir.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search