Search
Close this search box.

Sigur fyrir náttúruvernd

Deildu 

Nú hillir undir þjóðgarð á hálendinu, nokkuð sem áhugafólk um náttúruvernd hefur barist fyrir árum saman. Umhverfisráðherra hefur kynnt frumvarp um málið, sem mun koma fyrir Alþingi á næstu vikum. Þá verður hægt að gera að veruleika baráttumál um þjóðgarð á hálendi landsins, mál sem Vinstri græn hafa lengi lagt áherslu á og kveðið er á um í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar.

Innan þjóðgarðsins verður að finna ein stærstu óbyggðu víðerni í Evrópu. Á svæðinu eru miklar andstæður og fjölbreytileiki í landslagi og jarðmyndunum og þjóðgarður á miðhálendi Íslands yrði risastórt framlag til náttúruverndar á heimsvísu. Lagt er til að almenn mörk þjóðgarðsins miðist við landsvæði sem eru í sameign þjóðarinnar – á þjóðlendum innan miðhálendislínu.

Umfangsmikil vinna stjórnvalda hefur átt sér stað um málið allt frá árinu 2016. Undirbúningsnefnd hélt ótal fundi með heimafólki og hagsmunaaðilum, opnir fundur voru haldnir þar sem hægt var að koma sjónarmiðum á framfæri og ráðslagað var við sérfræðinga. Hægt var að koma athugasemdum á framfæri í samráðsgátt og umhverfis- og samgöngunefnd mun senda það til umsagnar þegar það kemur fyrir þingið. Þá hefur ráðherra hitt allar sveitarstjórnir á svæðinu og skipulagt opna fundaröð um landið til að kynna málið.

Það er morgunljóst að um jafn viðamikið mál og þetta eru skiptar skoðanir; allt frá því að vilja engan þjóðgarð yfir í að vilja strangari friðunarskilmála en fylgja þjóðgarði og friða enn stærra svæði. Það er sjálfsagt og eðlilegt að hafa skiptar skoðanir á þeim framkvæmdum sem mögulega yrðu innan þjóðgarðs. Fyrir mér er ávinningurinn í stofnun þjóðgarðs aðalatriðið.

Fyrir okkur sem aðhyllumst náttúruvernd er mikilvægt að hafa stóru myndina í huga. Stofnun Hálendisþjóðgarðs er mikill sigur fyrir náttúruvernd. Sigur sem barist hefur verið fyrir árum saman, en verður nú að veruleika. Það er aðalatriðið.

Kolbeinn Óttarsson Proppé, alþingismaður.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search