Search
Close this search box.

Sóley Björk Stefánsdóttir, fulltrúi VG í sameinaðri bæjarstjórn Akureyrar

Deildu 

„Ég er gríðarlega ánægð með þetta skref sem nú hefur verið stigið og er til marks um hugrekki allra þeirra sem að koma. Það er alltaf auðveldast að gera engar breytingar en mikilvægast er að þora að láta reyna á góðar hugmyndir. Umræða um samhenta bæjarstjórn er ekki alveg ný af nálinni og nú vorum við sammála um að ef einhverntíman ætti að láta á hana reyna væri þetta rétta augnablikið. Öll erum við sammála um að við viljum leggja okkar að mörkum til að vinna sem best fyrir samfélagið okkar og komast að bestu niðurstöðu í hverju máli með aðkomu allra sjónarmiða frá upphafi.“ 

Enginn meiri- eða minnihluti í bæjarstjórn Akureyrarbæjar

Kjörnir fulltrúar í bæjarstjórn Akureyrarbæjar hafa ákveðið að afnema minni- og meirihluta í bæjarstjórn það sem eftir lifir kjörtímabils. Markmiðið er að mynda breiða samstöðu vegna sérstakra aðstæðna í kjölfar heimsfaraldurs og í rekstri sveitarfélagsins. Ákvarðanir sem teknar verða munu hafa áhrif á reksturinn til langs tíma og telja kjörnir fulltrúar farsælast á þessum tímapunkti að standa saman að þeim verkefnum sem framundan eru.

Helsta ástæða þess að bæjarstjórn telur þetta raunhæfan kost er að mikill samhljómur er í grundvallarstefnumálum allra kjörinna fulltrúa við núverandi aðstæður. Þau eru að verja viðkvæmustu hópa samfélagsins, setja hagsmuni barna og ungmenna í forgang, blása til sóknar á íbúa- og atvinnumarkaði og stefna á að því að rekstur sveitarfélagsins verði verði sjálfbær innan fimm ára.

Sú sviðsmynd sem blasir við í rekstri sveitarfélagsins er áður óþekkt. Að hluta til er um tímabundið ástand að ræða og eru kjörnir fulltrúar sammála um að taka lán og nýta þannig hagstæða skuldastöðu bæjarins til þess að mæta dýpstu lægðinni. Þrátt fyrir lántöku er óhjákvæmilegt að grípa til hagræðingar til þess að ná sameiginlegu markmiði um sjálfbærni í rekstri.

Á þessum tímamótum taka þeir flokkar sem áður voru í minnihluta við formennsku  skipulagsráði, frístundaráði, stjórnum Menningarfélags Akureyrar, Vistorku og Fallorku.

Lagt er af stað í þessa vegferð í þeirri trú að með þessum hætti geti bæjarfulltrúar best þjónað því hlutverki sem bæjarbúar fólu þeim í síðustu sveitarstjórnarkosningum.   

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search