Search
Close this search box.

Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra þakkar þríeyki á lokafundi almannavarna

Deildu 

Góðan dag

28. febrúar kom fyrsta smitið og allt breyttist.

Fréttir og vangaveltur – rakningarteymið – spálíkanið – bakvarðasveitin – upplýsingafundirnir – Þórólfur, hefurðu ekki áhyggjur? – Alma, ég ætla nú að hrósa og þakka – Víðir, góðan og blessaðan daginn og velkomin á þennan upplýsingafund – öndunarvélarnar – er nóg til af öndunarvélum? –  veirupinnarnir, – spurningar? – hvað gerist ef? – er hægt að nota veirupinnana frá Össuri? – „þetta er mjög óvenju­legt en seg­ir manni kannski að menn eiga ekki að fá sér tígr­is­dýr á þess­um tíma.“

Hvernig ber maður eiginlega fram Ischl?

Við erum öll Almannavarnir. Við lærðum öll, urðum eiginlega sérfræðingar, stundum snillingar að ræða smitleiðir og bestu ráðin

Dagarnir eins og í leiðslu – heima að horfa á upplýsingafundinn – heilagur tími klukkan 14.03 – spenna í loftinu en samt öryggi – þau brosa hvert til annars, þetta hlýtur að vera í lagi – Víðir á afmæli og fær köku og við viljum öll vera Víðir – eru spurningar?

Alma róleg, snjöll og fer yfir heilbrigðisþjónustuna – allt er í lagi en gæti orðið erfitt – smit á gjörgæslunni – hvað gerum við nú? Stillum saman strengi.

Getum við tekið á móti fleirum?

Hjúkrunarheimilin, geðheilsan, Vinnumálastofnun – við höfum aldrei upplifað annað eins – gestur fundarins í dag er Páll Matthíasson – ég er með fjóra punkta í dag.

„Já, ég mun nú leggja til við ráðherra að slaka á samkomubanninu.“

„Við erum ekkert að grínast með þetta“

Svo varð Víðir afi og öll þjóðin gladdist.

Heilsugæslan og já, við förum út í bíl til að taka sýni – hvað voru mörg smit hjá decode?

„Þetta kom okk­ur óvart þar sem við vor­um ekki með hug­ann við kyn­sjúk­dóma síðustu vik­ur“

Erum við komin yfir það versta?

„Þetta sumar verður ekkert eins og önnur sumur“

Þvílík gæfa að hafa þetta fólk.

Umhyggja, fagmennska og öryggi – allt sem við þurftum – nákvæmlega það sem samfélagið þurfti – fordæmalausir tímar – upplýsingafundir þar sem öllu var til skila haldið, þar sem spurningum var svarað og þar sem efasemdir voru viðraðar og ágreiningi var fagnað.

Ég vil á þessum tímamótum þakka heilbrigðiskerfinu okkar og heilbrigðisstarfsfólki um allt land fyrir einstakan sveigjanleika, hugkvæmni og fagmennsku, allt frá sýnatökum og yfir í nýja göngudeild og gjörgæslu. En þetta var líka verkefni samfélagsins alls þar sem við fórum eftir tilmælum, ábendingum og góðum ráðum. Lærðum nýja siði, fjarlægðir, sprittun, að brosa meira og snertast minna. Lærðum hvers við erum megnug þegar við hjálpumst að. Skólarnir, krakkarnir, hjúkrunarheimilin, fagfólk um allt samfélagið, allur almenningur. Verslunin, bílstjórar, íþróttafólk, sundlaugaverðir, allt varð öðruvísi en allt gekk þetta með samstöðu og tillitssemi. Öllu þessu fólki vil ég þakka. En verkefninu er ekki lokið við þurfum áfram að fara varlega og eftir því sem samfélagið opnast meira verðum við að leggja meiri áherslu á að gleyma ekki einföldu reglunum um að passa okkur sjálf, handþvott, sprittun og hæfilega fjarlægð. Og að taka tillit til okkar viðkvæmustu hópa. Því höldum við áfram.

Enn er fjöldi fólks og fjölskyldur að glíma við covid-19, afleiðingar sjúkdómsins og eftirköst. Tíu manns hafa látist og er fjölskyldum þeirra hér vottuð samúð. En nú er komið að næstu skrefum, næsta kafla þar sem við búum okkur undir að opna landamæri. Afar varlega. Verkefnisstjórn sem hefur fengið það hlutverk að stýra undirbúningi verkefnisins um sýnatöku og greiningar á COVID-19 meðal farþega sem koma til landsins mun skila fyrstu tillögum til mín á fundi síðar í dag, og í kjölfarið fæ ég minnisblað frá sóttvarnarlækni með tillögu um næstu skref varðandi opnun landsins. Þetta er flókið verkefni sem snertir mörg málefnasvið og mörg ráðuneyti og þarf að skoða bæði út frá sóttvarnarlegum röksemdum og efnahagslegum Þeim spurningum öllum verður svarað á næstu dögum.

En í dag er mér efst í huga þakklæti og lotning gagnvart þessu einstaka fólki hér. Alma Möller landlæknir, Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir og Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn. Á þessum degi vil ég afhenda ykkur dálítinn þakklætisvott fyrir ykkar einstaka framlag á sannarlega fordæmalausum tímum.

Hjartans þakkir.

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search