Search
Close this search box.

Þekking og velferð

Deildu 

Við erum stödd í miðjum heimsfaraldri sem hefur áhrif á líf okkar allra. Við höfum breytt hegðun okkar, förum síður úr húsi, og sum ekki neitt, til að sinna því sem þarf að sinna, til að stemma stigu við útbreiðslu veirunnar. Efnahagslegar afleiðingar eru þegar farnar að hafa mikil áhrif og þau munu verða enn meiri. Tvennt er það sem helst mun koma okkur út úr þessu; þekking og velferð.

Öllu skiptir að aðgerðir séu byggðar á þekkingu og mikilvægi þess félagslega undirlags sem er til staðar í samfélaginu er ljóst. Nægir í þessum efnum að bera saman stöðuna á Íslandi og í Bandaríkjunum.

Vestra hafa aðgerðir að miklu leyti byggst á tilfinningu forseta Bandaríkjanna. Sú tilfinning litast af óskum hans um það hvernig hann vildi að þetta væri, sem og þörf fyrir að nýta sér ástandið til að upphefja sjálfan sig. Það sést best á daglegum blaðamannafundum þar sem er engin lína um viðbrögð, einn daginn er eitt sagt, þann næsta annað. Spá­líkön og ráðleggingar vísindafólks eru dregin í efa og því haldið fram sem stjórnmálamaðurinn Trump telur að gagnist sér best hverju sinni.

Íslensk stjórnvöld tóku þá ákvörðun að fylgja ráðum okkar helstu sérfræðinga á þessu sviði. Enginn í ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur er sérfræðingur á sviði sóttvarna, en við erum svo heppin að eiga slíka á heimsmælikvarða. Á þeirra ráðum byggjum við.

Þetta á einnig við um aðgerðir í efnahagsmálum. Þetta eru ekki tímar fyrir yfirboð eða spár sem byggja á tilfinningu. Við eigum að hlusta á sérfræðinga, til dæmis þegar að peningastefnu kemur og því hvort líkur séu á verðbólgu, hvernig þurfi að styðja við launafólk og fyrirtæki.

Leiðin út úr þessu byggir á því að verja og efla velferðarkerfið. Félagslega rekið heilbrigðiskerfi hefur sýnt kosti sína fram yfir það einkarekna. Við stöndum öll saman í þessu, leiðin út er leið samneyslunnar.

Kolbeinn Óttarsson Proppé, alþingismaður

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search