Search
Close this search box.

Til hamingju með daginn!

Deildu 

Saga verkalýðshreyfingarinnar er samofin sögu fullveldisins og jákvæð áhrif hennar á samfélagið hafa verið gríðarleg. Fjölmörg þeirra réttinda sem vinnandi fólki þykja nú sjálfsögð kölluðu á mikla baráttu. Það var samstaða vinnandi fólks sem skilaði árangri á borð við samningsrétt, uppsagnarfrest, fæðingarorlof, vinnuvernd, orlofsrétt og svo mætti lengi telja.

Verkalýðshreyfingin hefur að sama skapi haft ómetanleg áhrif á uppbyggingu velferðarkerfisins á Íslandi. Fyrstu lögin um almannatryggingar voru sett árið 1936 eftir miklar umræður á Alþingi þar sem andstæðingar þeirra töldu þau ýta undir almenna leti í samfélaginu.

Þá barðist verkalýðshreyfingin ötullega fyrir félagslegu húsnæði en lög um verkamannabústaði voru sett 1929. Eins var verkalýðshreyfingin áhrifavaldur þegar Breiðholt byggðist í Reykjavík á sjöunda áratugnum eftir margra ára húsnæðiseklu. Húsnæðismálin höfðu þá verið hitamál í hverjum sveitarstjórnarkosningum á eftir öðrum og fólk bjó í bröggum sem herinn hafði skilið eftir sig.

Þá má ekki gleyma baráttunni fyrir styttingu vinnuvikunnar sem nú er aftur komin á dagskrá, fyrst og fremst fyrir tilstuðlan verkalýðshreyfingarinnar en vökulögin voru sett 1921; fram að því voru engin takmörk hversu lengi var hægt að láta fólk vinna. Vökulögin tryggðu sex tíma lágmarkshvíld.

Verkalýðshreyfingin hefur vaxið og dafnað á þessum tíma og haft mikil áhrif. Réttindi hafa batnað stórkostlega, velferðarkerfið hefur verið byggt upp, heilbrigðiskerfið tekið stakkaskiptum og almenn menntun tekið stórstígum framförum.

Um leið eru verkefnin alltaf ærin, ekki síst á óvissutímum eins og nú, þar sem þúsundir hafa misst vinnuna vegna efnahagslegra áhrif heimsfaraldurs kórónaveiru. Leiðarljósið verður að verja störf, tryggja réttindi launafólks og koma samfélaginu sem hraðast út úr þeim þrengingum sem nú ganga yfir. Leiðarljósið verður líka að skapa ný tækifæri með aukinni opinberri fjárfestingu í fjölbreyttum geirum og með því að tryggja aukna menntun og önnur úrrræði til að styðja við fólk.

Baráttudagur verkalýðsins minnir okkur öll á hverju samtakamátturinn getur komið til leiðar.

Til hamingju með daginn!

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search