Fjárhagsáætlun Reykjavíkur fyrir árið 2023 sýnir fram á að fjárhagsstaða Reykjavíkur er vægast sagt ekki góð. Vinstri græn í borginni hafa hvatt meirihlutann til að verja viðkvæma samfélagslega þjónustu í sparnaðaraðgerðum sínum og gæta þess að velta ekki nýjum byrðum á herðar almennings í þessu árferði. Því miður hefur ekki verið nægilega tekið tilllit til þeirra sjónarmiða í fjármálavinnunni.
Vinstri græn hafa lagt fram ýmsar tillögur bæði til sparnaðar, s.s. varðandi yfirstjórn borgarinnar og starfskostnað borgarfulltrúa og úrbóta sem spara munu fé til bæði langs og skamms tíma en stuðla að umhverfismarkmiðum til langs tíma, s.s. varðandi útskipti bensínknúinna farartækja í bílaflota borgarinnar og fækkunar flotans. Þá hafa Vinstri græn í málflutningi sínum lagt ríka áherslu á að vinda ofan af verstu niðurskurðartillögunum, s.s. varðandi niðurskurð á bókakaupum í grunnskólum, skerðingu á starfsemi félagsmiðstöðva, lakari næringu leikskólabarna og þá fyrirvaralausu niðurlagningu siglingastarfsemi í Nauthólsvík sem fyrirhuguð var. Á sama tíma hafa Vinstri græn alfarið hafnað hvers kyns einkavæðingarhugmyndum sem skotið hafa upp kollinum frá fulltrúum Sjálfstæðisflokksins og Flokki fólksins sem meirihlutinn í borginni hefur einnig daðrað við eins og sjá má á ýmsum útvistunartillögum í grunnþjónustu borgarinnar..