Jódís Skúladóttir, oddviti framboðs Vinstri grænna í nýju sameinuðu sveitarfélagi á Austurlandi er viðmælandi 10. VG-varpsins. Berglind Häsler, einn umsjónarmanna VG-varpsins og kosningastjóri eystra, settist niður með Jódísi í Fellabæ á dögunum.
Jódís er lögfræðingur að mennt og vinnur sem verkefnastjóri hjá Austurbrú. Jódís ólst að mestu upp í Fellabæ og er nú aftur flutt þangað eftir að hafa búið um árabil í höfuðborginni. Hún hefur vakið athygli fyrir baráttu sína fyrir málefnum hinsegin fólks á Austurlandi en hún ásamt fleirum stofnaði samtökin Hinseigin Austurland. Jódís hefur enda mikinn hug á því að berjast fyrir jafnara Austurlandi, hvort sem það er á sviði kvenréttinda, hinsegin fólks, eldri borgara, fólks af erlendum uppruna eða öryrkja. Þá er Jódís mikill umhverfissinni, talar fyrir fjölbreyttu atvinnulífi og blómlegu menningarlífi.