Hreindís Ylva Garðarsdóttir Hólm, lætur af embætti formanns Ungra vinstri grænna á fjarlandsfundi á um helgina. Fundinn átti að halda með stæl norður í Hrísey, en verður svo bara á netinu eins og lífið allt. Hreindís er ánægð með árin sín í forystu UVG og hún er hvergi nærri hætt í pólitík.
Eftir tvö ár í formennsku telur formaðurinn að UVG hafi rækt hlutverk sitt sem samviska Vinstri grænna, eins og lítill fugl sem hefur setið á vinstri öxl forystunnar og minnt hana á fyrir hvað VG stendur. Hreindís segir sambandið við stofnanir móðurhreyfingarinnar gott og telur að forysta VG hlusti alltaf á ungliðana.
UVG hugsar sér stóra hluti í kosningabaráttunni á næsta ári. Stjórn ungliðahreyfingarinnar er þegar farin að leggja eigin línur fyrir komandi kosningar. Fingraför ungra verða allsstaðar, lofar Hreindís, sem ætlar sjálf að taka þátt í kosningabaráttunni af fullum krafti, bæði með UVG og móðurhreyfingunni enda séu stjórnmál einhverskonar fíkn í hennar huga og engin leið að hætta.
Nýtt fólk er að gefa kost á sér í stjórn UVG á landsfundinum um helgina, þar lítur út fyrir góða blöndu af reynslu og nýungum. Nýskráningar í Ung vinstri græn, séu heilmargar núna, þótt móttaka nýrra félaga sé ekki spennandi á covid-tímum. UVG vex fiskur um hrygg úti á landi, nýtt fólk hefur komið til í tengslum við sveitarstjórnir og nú finnst Hreindísi komið að því að UVG fái áheyrnarfulltrúa í sveitarstjórnarráði, en það sé ekki síður mikilvægt en í stjórn og þingflokki. Hreindís óskar þess að UVG haldi áfram vaxa og dafna sem róttækt afl á öllum tímum.